Frábært ár framundan...

Já gleðilegt ár! Það hlýtur bara að verða frábært, leiðir liggja til allra átta árið 2008, verður maður ekki að trúa því?

Nú eru jól í fyrra skiptið á þessu ári, um að gera að njóta þeirra, heilir 4 dagar eftir! Svo koma aftur jól í lok ársins.. þ.a. já jólin eru tvisvar á ári!!! Og það góða við það að það eru bara ein jólainnkaup og bara einn Vísareikningur! þ.a. þetta er svona 2 fyrir 1 dæmi... okokok.. ég er nú bara að reyna að horfa á þetta svolítið björtum augum :P

Áramótin fuku einhvern veginn bara hjá... við fjölskyldan ákváðum að rúnta í gegnum bæinn fram og til baka í kringum miðnætti og upplifa áramótin þannig í staðinn fyrir að koma okkur fyrir uppi á holti og horfa yfir - enda minna varið í flugeldana nú en oft áður vegna veðurs.. Ég tók líka bara brotabrot af flugeldamyndum... tók þó vélina með mér og stillti upp á þrífót við Landsspítalann og tók... hmmm þarf að telja.... já EINA flugeldamynd! - ekkert spes sem slík einu sinni... held að það sé nú bara met! Enda gerir maður svo sem lítið við þessar flugeldamyndir.. ég hef tekið meira áður og eitthvað af þokkalegum flugeldamyndum og var bara ekki í stuði til að eltast við þetta enda vorum við bara á rúntinum um áramótin... Aron var svo þreyttur að hann ákvað að vera einn af þeim síðustu til að sofna á síðasta ári og sofnaði í bílnum nokkrar mínútur fyrir miðnætti... Svo var bara slagviðri þegar við komum heim þ.a. ég fór bara út að kvöldi nýársdags með krökkunum að skjóta upp...

Gleðileg jól!


John Doe...

Það er nú ekki á hverjum degi sem einhverjum "meðal-Jóni" eins og mér gefst tækifæri á að vera dreginn skyndilega inn í ævintýranlega atburðarrás sem á nú bara heima í amerískum spennuþáttum eins og John Doe eða hvað þeir nú heita þessir dularfullu spennuþrungnu þættir.. nú eða bíómyndum eins og Tortímandanum þ.s. dularfull vöðvastælt mannvera birtist skyndilega allsnakin í miðju húsasundi eða úti á miðri götu... já ég skal segja ykkur það.. ég fékk minn skerf af þessu ævintýri ævintýranna í dag...
Ég var á rólegri keyrslu á stóra blásanseraða sportbílnum mínum (okok, en Yarisinn er nú RISAsmár!) eftir götum Reykjavíkur í hádeginu í dag, 27. desember, með 3ja daga Bruce Willis brodda á skalla og andliti frá aðfangadegi, nýkominn af ánægjulegum fundi þar sem ég sat að samningaborði við Baugsveldið (alltílagiþá... ég var bara við búðarkassa að skila bókum í Bónus.. og jájá, ég sat ekki ég stóð við kassann.. smámunasemin...huh..).. En jæja, ég var s.s. að keyra inn í eitt af 1287 hringtorgunum í Reykjavík, við skulum ekkert vera að tilgreina hvar nákvæmlega (til að vernda hina saklausu) en ég fór s.s. í ytri hring þ.s. ég fór strax út úr því á næstu afrein og þar lenti ég s.s. inn í þessu ævintýri.. skyndilega stökk þar fyrir bílinn maður, vöðvastæltur, nakinn með lýsandi rauð augu... (óóókeiþá, gamall maður stóð þá bara þarna úti á miðri götu (heppni að ekki var keyrt á hann) og ég sveigði framhjá og stoppaði, hann var í jakkafötum og snyrtilegur fara) Ég stoppaði bílinn þ.s. ég sá að hann vantaði einhverja aðstoð, ég sagði honum strax að það væri stórhættulegt að stoppa þarna, rétt nýkominn út úr hringtorginu, hann sat þá ekki við orðin tóm og skellti sér inn í bílinn... með snarræði tókst mér að sópa úr sætinu gemsanum, geisladiski og öðru smáræði áður en hann lenti í sætinu og náði svo í gemsann aftur á gólfið og keyrði af stað.. ég spurði hann svo hvert hann væri að fara og hann sagðist vera að fara niður í bæ, ég sagði að ég væri nú ekki að fara svo langt en fljótlega kom nú í ljós að hann vissi ekki alveg hvert hann væri að fara eða hvaðan hann var að koma.. ég fór því inn á bílaplan hjá næstu bensínstöð og þar nefndi hann eitt heimilisfang og hann væri að fara þangað.... og hann væri reyndar að koma þaðan líka... duuduududududuuuduuuuduuu.... nú var þetta orðið eins og gömlu þættirnir "The Twilight Zone"... Málið var svo að þetta heimilisfang sem hann nefndi var ekki einu sinni niðri í bæ heldur ekki svo langt frá okkur og ég sagði að við gætum nú alveg fundið það og spurði hvort hann hefði verið þar, hann sagði að hann væri með bíl þar. Ok hugsaði ég með mér... ekki leist mér á að keyra honum og finna einhvern bíl sem hann vissi ekki hvar væri, hvert hann væri að fara, hvaðan hann væri að koma, jafnvel hver hann væri, hvernig bíll þetta væri nema hann hélt jú að þetta væri grá Toyota... Hvað átti gamall maður að gera með gráa Toyotu með ekki meiri vitneskju en þetta? Ok, mér fannst a.m.k. byrjun að finna bílinn.. Honum fannst þetta voðalega leiðinlegt og sagði að hann dytti stundum svona út, ég sagði að þetta væri í góðu lagi, við myndum finna út úr þessu...
Ég var líka að reyna að finna út úr því hvort hann væri að koma úr einhverju húsi, hann talaði þá um eitthvað félagsheimili eða eitthvað og einhverjar framkvæmdir... Svo fundum við að lokum heimilisfangið sem hann nefndi í byrjun, eða ég reyndar.. þetta var blokk.. ég var þá áður búinn að spyrja hvort þetta væri grá Toyota Corolla og hann sagði að hann héldi að þetta væri ekki Corolla... hmmmm
Við keyrðum þarna inn á bílaplan við blokk og viti menn þar voru tvö stykki gráar Toyota Corolla... Maðurinn vildi ekkert kannast við húsið og aðspurður sagðist hann ekki hafa verið að koma úr húsinu heldur bara hafa komið þar við, ég var að reyna að spyrja hvort hann þekkti einhvern þar... þetta var allt frekar dularfullt... en svo fórum við út úr bílnum og við gengum á milli bílanna og hann sagðist nú ekki kannast við þessa bíla, gekk svo að einhverjum Renault eða einhverjum öðrum bílum þarna og hélt alltaf á einhverjum lyklum, ég spurði hann hvort hann væri þá ekki með lyklana svo við gætum þá bara fundið út úr þessu.. (þó svo að mér leist nú ekkert á að hann færi að keyrandi eitthvað blessaður maðurinn í þessu ástandi... ég vildi bara koma einhverju öðru púsli fyrir í þessu púsluspili þ.s. ég var a.m.k. búinn að finna þetta heimilisfang) Hann sagði að þetta væru bíllyklarnir og sýndi mér þá... uuu ég sagði þá neinei, þetta eru húslyklar, ertu ekki með þá í einhverjum vasa.. hann leitaði þá í öllum vösum og fann hvergi og skyldi ekki í því og sagði svo að þetta ættu nú að vera lyklarnir af bílnum, s.s. húslyklarnir... hmmm ég spurði hann áfram og var búinn að spyrja hann nokkrum sinnum hvort hann hafi ekki verið í þessari blokk eða þekkti engan í þessari blokk sem við stóðum fyrir utan, hann sagðist ekki hafa verið þar eða kannast neitt við þá blokk... hmmm, nú bara var ég orðinn nokkuð ráðþrota.. hvað átti ég að gera.. ætlaði að fara að yfirheyra manninn og reyna að fá nöfn og jafnvel símanúmer næst ef hann gæti munað það.. Næst hefði ég svo hringt á lögregluna en ég vildi ekki gera það fyrr en ég hefði reynt allt sem ég gæti til að hjálpa greyið manninum þ.s. lögregluhjálp getur kannski virkað frekar niðurlægjandi.  Annars var hann nú bara nokkuð hress karlinn... En svo skyndilega þar sem við vorum ráfandi þarna um á bílaplaninu kemur gömul kona í útidyrnar á blokkinni og kallar til okkar... við göngum til hennar og ég spyr hana hvort hún þekki manninn, hún kallar til hans "ertu nú orðinn alveg ruglaður?".. svo kemur maðurinn til okkar og segir við mig "Þetta er konan mín".... og gengur inn, þarna voru fagnaðarfundir um stund, gamla fólkið þakkar mér vel og innilega fyrir og ég var bara sæll og glaður að hafa getað komið þeim til hjálpar... og keyrði svo á brott á RISAsmáa Yarisnum mínum að loknu góðverki dagsins....
Eftir á að hyggja þá einhvern veginn efast ég um að maðurinn hafi keyrt bíl í langan tíma og ég hugsa að hann hafi staðsett sig tímalega á mismunandi tímaskeiði á nokkrum árum s.l. 10-20 árum eða svo, verið með flest svona sem eðlilegt er á hreinu nema ekki ákveðin heiti og staði og gleymt flestu en sem betur fer mundi hann eftir konunni sinni, hann var samt alveg eðlilegur í tali. Þetta er vafalaust erfiður sjúkdómur... spurningin er bara hvað hann var að gera þarna einn úti á hálfgerðri hraðbraut í Reykjavík á STÓRhættulegum stað, kannski "datt hann út" í miðjum göngutúr... ég skil ekki að aðrir hafi ekki stoppað á undan mér og vil ekki hugsa það lengra ef ég hefði ekki stoppað... Þetta með ævintýrið var nú eiginlega bara svona á léttu nótunum þ.s. þetta fór nú allt vel að lokum.. Ótrúlegt hvað mér fannst þetta lítið stressandi þó að svona fyrirfram hefði maður kannski haldið að það væri það að "lenda í svona" aðstæðum.
Allt er gott sem endar vel...

Ekki vera súr...

...nema þú sért glassúr..!

Neyðarlínan ótraustvekjandi?

já það er með ólíkindum að hann skuli hafa lifað þetta af 79 ára gamall maðurinn í jökulköldu vatninu, líkamshitinn fór niður í um 25 gráður. En maðurinn er núna allur að koma til og er kominn úr öndunarvél.

Það virðist safnast upp fleiri og fleiri tilvik þ.s. neyðarlínan er ekki að virka sem skyldi. Þarna var það greinilega vegfarandinn úr björgunarsveitinni sem hafði mikið að segja og má segja tilviljun að ekki fór verr þ.s. neyðarlínan stóð sig ekki sem skyldi, a.m.k ekki út frá þessarri frétt að dæma. Það væri áhugavert að sjá skýrslu neyðarlínunnar um málið, hvað olli því að nálægt klukkustund hafi liðið frá því að tilkynning barst að útkalli, það er bara hneyksli ef þetta er eins og það lítur út fyrir að vera. Öryggistilfinning gagnvart neyðarlínunni fer dvínandi myndi ég segja. Maður er að heyra sífellt fleiri dæmi um misbresti á eftirfylgni tilkynninga til neyðarlínunnar. Fyrir mér finnst mér neyðarlínan þá virka bara sem flöskuháls á neyðartilfelli, væri ekki bara betra að hringja beint til lögreglunnar eða á sjúkrabíl eftir því sem við á - eða hvað? A.m.k. ef málum er ekki sinnt betur en þetta. Auðvitað er þetta ekki algilt en eitt svona dæmi er of oft, starfsmenn neyðarlínunnar þurfa að starfa af sömu ábyrgð og heilaskurðlæknar þ.s. líf geta verið í húfi.
En allt í lagi, leyfum þeim að njóta smá vafans þar til einhver skýring kemur frá þeim á þessum tíma sem leið frá tilkynningu að útkalli. Þessi frétt setur a.m.k. svartan blett á neyðarlínuna.


mbl.is Klukkustund að útkalli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað er hún í megapixlum?

"Samkvæmt International Herald Tribune var það safnari sem keypti vélina í einkasafnið sitt."

Nú, vantaði honum ekki bara vél til að taka fjölskyldumyndir??

Nei annars held ég að það væri ekki amarlegt að eiga svona dýrgrip í glerkassa í stofunni hjá sér.. já og þá kannski aðeins stærri stofu og efnahag í stíl við vélina... hehe 

Það væri kannski leið að fjármagna svona græju með því að taka einhverjar listamyndir með henni, stækka upp á sýningu og halda sýningu og framleiða aðeins 3 eintök af hverri mynd, jafnvel bara eitt.. þannig yrðu þær myndir svakalega dýrmætar þ.s. það eru ekki margar myndir teknar á svona vélar í dag.. eee núú, eru græjurnar ekki annars málið, mér hefur sýnst það á öllum tækjadellugaurunum í dag..

Annars eitt af því betra sem ég hef heyrt í tengslum við tækjadelluna sem er í gangi hérna í ljósmyndaheiminum á Íslandi er að "þegar maður kaupir dýran ljósmyndabúnað þá er maður orðinn ljósmyndari en þegar maður kaupir dýra þverflautu þá er maður orðinn eigandi af dýrri þverflautu...!" Þannig er hin brenglaða mynd á íslenskum ljósmyndamarkaði í dag, ljósmyndari sagði mér þetta og mér fannst þessi setning smellhitta naglann svo gjörsamlega á höfuðið..


mbl.is Leica fyrir 30,6 milljónir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svefninn ofmetinn..?

Ferlega var gott að sofa s.l. nótt... en spáum aðeins í það.. er í raun gott að sofa? er ekki bara gott að hafa sofið eða vera að fara að sofa? Þegar maður er sofandi þá er maður bara sofandi... Á meðan svefninn er kannski almennt ofmetinn þá vanmet ég hann eflaust sjálfur.. sofa meira, vaka minna - hvíldur, það er málið!

góðan daginn..!


Þetta er að hafast...

Birgir Leifur er sem stendur bara nokkrum höggum frá því að tryggja sér rétt á Evrópumótaröðinni, er í 26.-34. sæti og stefnir á að tryggja sér réttinn, þetta er búin að vera þvílík spenna í dag, hann hefur dansað í kringum 30. sæti eftir að hafa byrjað á því að skjótast uppí 11. sæti en ég held að þetta sé að koma núna hjá honum þrátt fyrir að hafa misstigið sig aðeins á 14. holu, bara 4 holur eftir.. hann er snillingur og ég hef fulla trú á honum! Smile

Maður er auðvitað endalaust stoltur af honum, hann hefur verið að standa sig frábærlega..!


mbl.is Birgir: „Ég hef aldrei verið eins stoltur“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Snillingurinn Eggert Pétursson...

Ég ákvað að afrita og setja hingað inn athugasemd sem ég setti inn á bloggsvæði hjá Hallsteini félaga mínum þar sem hann fór fögrum orðum um málverkasýningu Eggerts Péturssonar sem stóð yfir á Kjarvalsstöðum fram í byrjun nóvember. Ég ætlaði meira að segja að vera búinn að skrifa hér eitthvað um sýninguna þ.s. ég varð fyrir þvílíkum hughrifum á þessari sýningu...
Ég fór á þessa sýningu seint í október og var gjörsamlega bergnuminn.. Ég er búinn að fara töluvert af sýningum á þessu ári og ég verð að segja að þó það sé ekki einhver djúp pæling að baki þessum verkum hans Eggerts þá á svona "sjónræn fegurðarlist" svo sannarlega rétt á sér og jafnvel meira en annað.. Ef eitthvað er augnakonfekt þá var það þessi sýning. Ég veit ekki hversu oft ég fór hringinn um sýningu Eggerts þarna á Kjarvalsstöðum, ég átti a.m.k. erfitt með að fara frá Kjarvalsstöðum og má segja að ég hafi svona "byggt mig upp" fyrir næstu umferð/næsta hring með því að ganga um og skoða aðrar sýningar á Kjarvalsstöðum á milli þess sem ég gekk aftur inn í salinn, má segja að ég hafi verið að borða snúðinn á milli þess að ég fór inn og hámaði í mig glassúrinn... Sem betur fer fór ég einn þ.a. ég gat gefið mér góðan tíma en því miður gaf ég mér ekki tíma til að fara oftar en í eitt skipti, enda voru fáir dagar eftir þegar ég loksins fór, ég var alltaf á leiðinni... Fegurðin í þessum verkum hans ristir djúpt og hvað gat maður annað en gengið út með bókina hans undir hendinni svona djúpt snortinn.. Samt sem áður þá eru þetta þannig verk að það er ekki hægt að líkja því saman að skoða verkin í öðru formi en original, þessar myndir eru alveg geggjaðar og það liggur við að ef maður væri með 1-3 millur lausar undir koddanum að það væri þess virði að fjárfesta í einu stóru nýju verki hans til að gleðja augun um ókomna framtíð.. Í allra nýjustu verkunum sá maður að hann er aðeins farinn að koma landslagi meira inn í plönturíkið og mér finnst það heppnast vel í því mæli eins og hann gerir þar.. en ok, nóg af þessu blaðri, það skilja eflaust fáir svona hrifningu nema fyrir það fyrsta að hafa farið á sýninguna og í öðru lagi að hún falli að áhugasviði eða smekk fólks..

bara glæsilegt..!


Álagið eykst...

Álagið í skólanum er búið að vera mikið í haust, ég er í 9 fögum í dagskóla, kvöldskóla og fjarnámi og svo ofan á það er ég að reyna að sinna vinnunni eins og hægt er... Þetta er samt búin að vera mjög skemmtileg önn í skólanum, sjónlistagreinarnar hafa opnað mér nýjan heim.. enda hafa þær greinar staðfest ákvörðun mína á að stefna á háskólanám í myndlist í LHí, bjartsýnin ætlar mér að gera góða tilraun á umsókn í myndlistardeild í LHÍ næsta vor fyrir skólaárið 2008-09, líkurnar eru kannski ekki endilega alveg með manni, ég held að það sé 1 af hverjum 4-6 sem komast inn og svo þarf ég líklega að fá að sækja um á undanþágu en ég "secret-a" þetta bara... hehe... ég skil bara ekki hvers vegna ég hef ekkert gert á þessu sviði fyrr en nú... en jæja, betra er seint en aldrei.. Smile
Nú eru síðustu 2 vikurnar í skólanum eftir og svo er komið að prófum, reyndar er ég bara í einu prófi á próftíma sem þýðir að það er heill haugur af lokaverkefnum, tímaprófum og öðrum skilaverkefnum sem ég er að vinna í og skila á næstu 2-3 vikum... en eins og ég segi alltaf...

þetta reddast...!


skólinn byrjaður...

...hey, það eru bara 2 vikur eftir!  Svakalega líður tíminn hratt..!

svona er að blogga eiginlega aldrei...


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband