Stoltur pabbi...

Við Sigurrós fórum í foreldraviðtal í síðustu viku með Örnu Rós í skólann hennar, hún var að klára 4. bekk.  Hún er að standa sig alveg rosalega vel og er t.d. meðal þeirra fljótustu í sínum árgangi í lestri enda hefur hún æft lestur vel og les af áhuga.. og eins og síðast er hún ein fárra sem fékk fullt hús stiga fyrir þemaverkefni vetursins og mjög góða umsögn kennara fyrir hversu stillt hún er og vinnusöm í náminu.  Þetta veit þá bara á gott fyrir framtíðina... Það er alltaf jafn ánægjulegt að fara með henni í foreldraviðtal í lok annar þ.s. hún stendur sig svo vel og við erum stoltið eitt...

Svo fórum við á fund vegna tölörðugleika Arons Andra þ.s. það var verið að meta hann og hvað eigi að gera.  Við vorum 6 á þessum fundi.  Hann er á biðlista hjá Talþjálfun Reykjavíkur, biðtíminn þar er fáránlega langur eða heilt ár... Það er allt of langur biðtími fyrir barn á þessum aldri þ.s. þetta er svo krítískur aldur upp á mótun barnsins fyrir framtíðina, heilt ár fyrir barn sem er 3-4ra ára er svakalegt... Arna Rós átti líka við svipað vandamál að stríða og fór í talþjálfun, hún fékk líka stuðning í leikskólanum þ.s. hún var í málörvunarhóp, eitthvað sem vantar nánast alveg í leikskólanum hjá Aroni Andra í Maríuborg. Það er alveg fáránlegt að hann/við fáum ekki þjónustu sem við eigum rétt á... Það er alltaf bara talað um manneklu en ég bara spyr, er stöðugt verið að reyna að ráða fólk, ég einhvern veginn efast um að það sé lögð nægilega mikil áhersla á það.  Þegar við foreldrarnir erum að koma heim með hann eftir kl. 17:30 á daginn þá er hann orðinn þreyttur.. besti tíminn er á morgnana eða a.m.k. fyrr um daginn fyrir svona málörvun.. Þ.a. það er gífurlega mikilvægt að hann fái þessa þjónustu í leikskólanum en því miður er eins og það sé bara lítið sem ekkert gert til að bæta úr því...  Það eru sennilega einhverjir 7-8 mánuðir þar til hann kemst að í talþjálfuninni en það er möguleiki að hann fái aðstoð frá... ahhh, man ekki hvað þetta heitir.. eitthvað sem er veitt í hverju hverfi.. en hann kemur víst ekki alveg nógu illa út tölulega séð til að vera í forgangi þar en umsókn verður þó send inn og við bentum þeim á að það þýðir ekki alltaf að horfa bara í einhverjar tölur... Hann hefur einangrast mikið í leikskólanum, hann leikur sér bara einn og á enga vini og það er farið að há honum andlega að ná ekki sambandi við önnur börn vegna talörðugleika... hann er orðinn nógu gamall til þess tæplega 4ra ára.  Skilningur og vitsmunaþroski er eðlilegur en það vantar bara að hann nái að tala þannig að hann sé nægilega skiljanlegur... Hann tekur þó stöðugt framförum og mestu framfarirnar hafa verið núna frá áramótum þ.s. hann rétt svo sagði eitt og eitt skiljanlegt orð um síðustu jól en getur tjáð sig í lengri setningum núna þótt það sé oftast illa skiljanlegt...  Hann er vel yfir meðallagi í þroska hvað varðar sjónrænan skilning, fer létt með flókin púsluspil svo létt að þau sem voru að meta hann bara göptu.. Þær sögðu líka að hann bræddi mann með persónutöfrum sínum, hann er algjör dúlli og ég er mjög stoltur af honum... Það sem hefur bjargað honum er að hann er mjög kátur og léttur í lund, oft stríðinn og glottir þá mikið, stríðnissvipurinn skín oft af honum..  Hann brosir mikið enda kalla ég hann stundum broskallinn minn... Smile

 

Hvar/hvað væri maður án barna sinna...


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Hver er summan af fjórum og tveimur?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband