Brottför...

Það var sett inn frétt á www.fokusfelag.is um úrslit kosningarinnar sem ég talaði um í síðustu færslu.  Óskað var eftir smá frásögn um tilurð myndar minnar, Brottför. Eftirfarandi skrifaði ég í tilefni þess:

 

Í febrúar s.l. fór ég og Fókusfélagarnir Hákon Ágústsson og Pálmi Guðmundsson á smá ljósmyndarúnt um Reykjanesið.  Við stoppuðum m.a. í Krýsuvík, á hverasvæðinu.  Mér fannst bakgrunnurinn þarna henta vel fyrir svona "hopptöku".  Hákon og Pálmi röltu um hverasvæðið og mynduðu en á meðan var ég bara þarna og eyddi smá tíma í hopptökur.

Í nokkur ár hef ég tekið töluvert af sjálfsmyndum af mér hoppandi, í lausu lofti. Ég hef líka tekið myndir af öðrum hoppandi.  Ég reyni að taka svona myndir í flestum ljósmyndaferðum sem ég fer í og það er aldrei að vita nema að ég setji saman seríu á sýningu með einhverjum af þessum myndum í framtíðinni.  Eftir að ég lenti í bílslysi fyrir rúmum 2 árum þá reynir mun meira á mig við þessi hopp en áður, dæmi eru um að ég hef verið í einhverja daga að jafna mig eftir þessar blessuðu hoppmyndatökur mínar... en oftast finnst mér það alveg þess virði. Fyrir mér þá er eflaust dýpri merking í þessum hoppmyndum en þær líta út fyrir að hafa.  Út úr þeim má túlka ákveðið frelsi, lífsnautn og jafnvel óvissu.

Ég valdi titilinn "Brottför" fyrir þessa mynd, ég vildi láta líta út fyrir að ég væri að svífa á loft, ekki að hoppa, eins og ég væri að fara eitthvað, gufan allt í kring fannst mér vera eins og reykjarmökkur, álíka og kemur frá skotflaugum.  Eftir á þá tók ég eftir þotunni á himninum en staðsetning hennar var skemmtileg tilviljun. Mér finnst titillinn "Brottför" veita áhorfandanum gott svigrúm til að spyrja spurninga, táknar brottförin nýtt upphaf í lífinu, huglægt ferðalag eða eitthvað annað? "Hvert er hann að fara?". Mér finnst gaman þegar áhorfandinn getur upphugsað eigin sögu í tengslum við myndir. Sá sem gerir myndir þarf ekki alltaf að leggja söguna augljóst fyrir áhorfandann, þannig hefur myndin ekki eins mikla möguleika og áhorfstíminn verður þá væntanlega styttri og myndirnar þá kannski ekki eins áhugaverðar sem þýðir samt sem áður ekki að það séu slæmar myndir, þær falla þá frekar undir það að flokkast sem falleg skreyting. Myndir sem hafa svona möguleika á að áhorfandinn upphugsi eigin sögur og jafnvel mismunandi sögu í hvert skipti sem hann horfir á myndina flokkast þá meira sem afþreyingamyndir en geta auðvitað haft skreytingagildi í leiðinni.

 

húbba, húbba hopp...


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Hver er summan af sjö og þremur?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband