Til hamingju Sigurrós...

Á sunnudaginn, 27. maí varð Sigurrós jafngömul og ég, 35 ára. Í tilefni dagsins þá svaf hún út og á meðan bjó Arna Rós til mynd handa henni með skeljum og hjarta þ.s. hún skrifaði "Besta mamma í heimi", við pökkuðum svo myndinni inn og hún bjó til merkimiða.  Við pökkuðum líka inn gjöfinni frá mér Örnu Rós og Aroni með gjafakorti í heilrænt nudd í Laugum og peysu sem ég keypti í Kolaportinu... neeeee bara grín, ég keypti hana í Intersport... Við bjuggum svo til kort til að setja á pakkann eða réttara sagt börnin, Arna Rós teiknaði mynd framan á og skrifaði á kortið og Aron Andri teiknaði aftan á kortið.  Svo fórum við öll og vöktum Sigurrós, Aron Andri spilaði afmælislagið með lítilli spiladós sem ég keypti á afmælisdegi Sigurrósar fyrir nokkrum árum og Sigurrós vaknaði í rólegheitunum ánægð og árinu eldri.  Eftir að Sigurrós var komin á fætur og almennilega vöknuð þá gáfum við henni gjafirnar en ég gaf henni líka táknræna grafíkmynd eftir Irene Jensen sem ég fékk í Gallerí List sem heitir "Ég og þú".  Við ákváðum að fara í bíltúr í sumarblíðunni og keyrðum til Þingvalla, það setti smá skugga á ferðina að koma þar að leiðinlegu bílslysi þ.s. bíll hafði oltið út af veginum en á leiðinni þangað höfðu tveir sjúkrabílar farið framúr okkur.  Þegar við keyrðum þar framhjá var verið að hlúa að fólkinu í vegkantinum og það var vissulega léttir að sjá hreyfingu á fólkinu.  Ég las það svo síðar á netinu að sem betur fer slasaðist fólkið ekki alvarlega... Þrátt fyrir það þá þekki ég það af eigin raun að þó að það sé sagt í fjölmiðlum þá getur fólk þurft að eiga við afleiðingar slyssins það sem eftir er þó svo að ekki sé talið að um "alvarleg slys" hafi verið að ræða..
En hvað um það, við létum þetta þá ekki hafa mikil áhrif á daginn og héldum för okkar áfram á Þingvelli, þar gengum við að Flosa- og Nikulásargjá (peningagjá) og fórum að Valhöll án þess að stoppa þar að ráði, svo héldum við för okkar áfram og keyrðum suður á Stokkseyri þ.s. ég hafði pantað borð í Fjöruborðinu.  Þar fengum við Sigurrós okkur humarsúpu og humar og börnin barnarétti.  Það var fínt að prófa þetta, við höfðum ekki fengið okkur humar þarna áður en við höfðum fengið okkur humarsúpu þarna áður og ég nokkrum sinnum.  Humarsúpan er mjög góð þarna en ég held að ég láti það nægja þetta skipti með humarinn sjálfan.  Ekki það að hann sé eitthvað vondur, hann er alveg ágætur en þetta kostar sitt og er svo sem ekkert betri humar en maður fær úti í búð og næst held ég að ég velji kjötrétt þarna á eftir humarsúpunni.
Eftir matinn þá fórum við niður í fjöruna þarna og týndum eitthvað af kuðungum, skeljum og steinum.  Svo keyrðum við til Þorlákshafnar og svo þaðan til Reykjavíkur um Þrengslin... Þetta var mjög afslappandi og góður rúntur.  Um kvöldið fengum við okkur svo afmælistertu sem Sigurrós bakaði og enduðum daginn með því að horfa á mynd sem við tókum á leigunni... Pursuit of happiness með Will Smith, mjög góð dramatísk mynd sem er byggð á sönnum atburðum og sýnir hversu langt er hægt að ná með vilja og staðfestu...

góður afmælisdagur...


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Hver er summan af einum og sextán?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband